Viðskipti innlent

Straumur segir mun á eignum og áhættu vera einn milljarð evra

Straumur hefur unnið að því að minnka efnahagsreikning og áhættu bankans, vernda eigið fé og bæta lausafjárstöðu. Þann 31. október sl. voru heildareignir Straums undir 5 milljörðum evra og áhættugrunnur bankans undir 4 milljörðum evra. Munurinn er því einn milljarður evra eða 166 milljarðar kr..

Nú í byrjun nóvember nýtti Straumur tækifæri á markaði til að styrkja tekjuskapandi hluta rekstursins í London með því að ráða nokkra af fyrrverandi starfsmönnum Teathers og kaupa vörumerkið Teathers.

Þetta kemur m.a. fram í greinargerð frá Straumi sem unnin var að beiðni Fjármálaeftirlitsins. Þar segir ennfremur að Straumur hefur á síðustu mánuðum haldið áfram að auka hlutfall tekna vegna þjónustu við viðskiptavini og draga úr áhættu í efnahagsreikningi, að því leyti sem mögulegt er.

Efnahagsreikningur bankans og eigið fé hefur óhjákvæmilega rýrnað vegna lækkunar á verði eigna, bæði fjáreigna og útlána. Straumur hafði nokkrar eigna-, skulda- og afleiðustöður gagnvart Landsbanka Íslands hf., Glitni banka hf. og Kaupþing banka hf., þegar rekstur þeirra voru teknir yfir af Fjármálaeftirlitinu. Straumur telur að eftir uppgjör á þessum samningum séu samanlögð áhrif á eignastöðu Straums jákvæð.

Uppgjör reikninga Straums er í evrum og ver bankinn eignir sínar í evrum. Hins vegar á bankinn töluvert af eignum og skuldum í öðrum gjaldmiðlum, þar á meðal íslenskum krónum. Bankinn hefur þó ekki getað sinnt hefðbundnum gjaldeyrisvörnum undanfarna mánuði vegna lokunar gjaldeyrismarkaðar á Íslandi.

Á þessum tíma hefur bankinn neyðst til stöðutöku í mismunandi myntum. Þegar markaðsaðstæður leyfa mun bankinn taka upp fyrri aðferðir við gjaldeyrisvarnir. Með hliðsjón af framangreindu getur Straumur staðfest að veiking íslensku krónunnar hefur ekki haft veruleg áhrif á eignastöðu bankans.

Síðustu mánuði hefur bankinn staðið við allar sínar skuldbindingar og mun gera það framvegis. Síðustu atburðir á Íslandi hafa hins vegar orðið til þess að lánshæfismat bankans hefur verið lækkað af lánshæfisfyrirtækinu Fitch Ratings, í langtímaeinkunnina "B". Straumur hefur á þessu tímabili haldið góðu sambandi við lánardrottna bankans og unnið að því að tryggja lausafjárstöðu hans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×