Viðskipti innlent

Dótturfélag Icelandair leigir Boeingþotu til Síberíu

Í dag var undirritaður samningur milli Loftleiða Icelandic, dótturfélags Icelandair Group, og Yakutia Air Company í sjálfstjórnarlýðveldinu Sakha í Síberíu í Rússlandi um leigu á þriðju Boeing 757-200 farþegaþotunni til Yakutia.

Þotan sem um ræðir kemur úr flota áætlunarflugfélagsins Icelandair en vegna versnandi efnahagsástands hefur félagið minnkað framboð.

Icelandair hefur áfram yfirumsjón með viðhaldi þotanna í gegnum viðhaldsþjónustu sína, Icelandair Technical Services. Samningurinn er sá fjórði sem Loftleiðir Icelandic hefur undirritað á stuttum tíma um flugvélaleigu við samstarfsaðila í fjórum heimsálfum.

Heildarverðmæti þessara samninga nemur um 125 milljónum dollara eða um 14 milljarða kr.. Um er að ræða leigu á samtals sex þotum, einni Boeing 767-300ER og fimm Boeing 757-200 þotum, og er lengd samninganna frá sex mánaðum til sex ára.

„Samningurinn við Yakutia sýnir þann sveigjanleika sem við búum yfir. Þegar samdráttur dregur úr þörf fyrir þotu hjá einu félaginu, í þessu tilfelli Icelandair, nær systurfélagið Loftleiðir Icelandic að koma henni í arðbært verkefni," segir Sigþór Einarsson aðstoðarforstjóri Icelandair Group í tilkynningu um málið.

„Það er mikill styrkur fyrir Icelandair Group að vera í viðskiptum við trausta aðila í öllum heimsálfum. Um 75% af tekjum samstæðunnar koma af alþjóðamarkaði, en 25% frá Íslandi. Verkefnastaðan í alþjóðlegri leiguflugsstarfsemi fyrirtækja innan Icelandair Group er góð um þessar mundir og gjaldeyristekjugrunnur félagsins því traustur. Loftleiðir Icelandic er nú með sjö þotur í verkefnum og áætlanir eru um að bæta þeirri áttundu við snemma á næsta ári. Auk Loftleiða Icelandic eru í alþjóðlegu leiguflugi innan Icelandair Group flugfélögin SmartLynx í Lettlandi, Travel Service í Tékklandi, Bluebird Cargo á Íslandi."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×