Viðskipti innlent

Krónubréf falla á gjalddaga í vikunni

Krónubréf að nafnvirði 20 milljarðar króna að viðbættum vöxtum falla á gjalddaga í ágústmánuði, þar af 15 milljarðar næsta föstudag.

Fram kemur í Morgunkorni greiningardeildar Glitnis að um sé að ræða tíu milljarða útgáfu þýska þróunarbankans KfW og 5 milljarða útgáfu hins hollenska Rabobank sem jafnframt er stærsti útgefandi krónubréfa til þessa. Enn fremur gjaldfalla fimm milljarðar þann 11. ágúst þegar útgáfa kanadíska þróunarsjóðsins rennur út.

Alls eru útistandandi krónubréf að verðmæti 336 milljarðar króna og falla um hundrað milljarðar á gjalddaga næstu fjóra mánuði. Greiningardeild Glitnis bendir á að mikil ládeyða hafi ríkt í krónubréfaútgáfu að undanförnu og því sé ekki útséð með að gjaldföllnum bréfum á næstunni verði mætt með nýrri útgáfu krónubréfa.

Segir greiningardeildin að Seðlabankinn hafi brugðist við þessu með útgáfu á stuttum ríkisbréfum og gert vaxtamun virkan með öðrum leiðum en framvirkum vöxtum í skiptasamningum. „Þeir erlendu fjárfestar sem eiga krónubréf á gjalddaga á næstunni eiga því einhverra kosta völ með ávöxtum í krónum, kjósi þeir ekki að draga fjármagn sitt út úr íslensku krónunni," segir í Morgunkorninu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×