Viðskipti erlent

Rússar munu líklega hafna lánveitingu til Íslands

Rússar munu að öllum líkindum ekki veita Íslandi lán eins og rætt hefur verið um. Þetta kemur fram í blaðinu Rossiskaija Gazeta sem ræddi við Dimitri Pankin aðstoðarfjármálaráðherra Rússlands um málið.

Samkvæmt blaðinu er búið að slá samingaviðræður um lánið af og ekkert ákveðið um framhald í þeim efnum.

Pankin segir að þegar spurningin um lán Rússa upp á 4 milljarða evra til Íslands kom upp hafi ekki verið um pólitík að ræða heldur var rætt um málið á hefðbundnum fjárhagslegum nótum. Ætlunin hafi verið að veita lánið til að fá af því góða vexti með lítilli áhættu.

"En kringumstæðurnar hafa breytst," segir Pankin. "Á Íslandi er bankakerfið nú hrunið og skuldir þjóðarinnar nema tífaldri landsframleiðslu. Áhættan hefur því aukist og kringumstæðurnar eru aðrar."

Pankin segir í lokin að endanleg ákvörðun af hálfu Rússa liggi ekki fyrir. Aðkoma Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gæti haft jákvæð áhrif á vilja Rússa til að veita Íslandi lán.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×