Viðskipti erlent

Írland fyrsta evrulandið sem verður kreppunni að bráð

Írland er fyrsta evrulandið sem verður kreppunni að bráð en landsframleiðsla þess dróst saman tvo ársfjórðunga í röð. Talið er að fleiri Evrópulönd muni fylgja í kjölfarið þegar tölur birtast um landsframleiðslu þeirra á þriðja ársfjórðungi.

 

Greining Glitnis fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að landsframleiðsla dróst saman á Írlandi á öðrum ársfjórðungi, annan fjórðunginn í röð, og er landið þar með fyrst evrulanda til að sigla inn í samdráttarskeið samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu í kjölfar alþjóðlegu fjármálafjárkrísunnar og samdráttar í byggingariðnaði og einkaneyslu í landinu.

Verg landsframleiðsla á öðrum fjórðungi ársins dróst saman um 0,5% frá fyrsta fjórðungi þessa árs þegar samdrátturinn nam 0,3%, og um 0,8% frá öðrum ársfjórðungi í fyrra. Mikill uppgangur hefur átt sér stað í írsku hagkerfi frá því síðla á tíunda áratug síðustu aldar þegar erlend fyrirtæki flykktust til landsins til að njóta góðs af hagstæðri skattalöggjöf Íra.

Undanfarin tíu ár hefur hagvöxtur á Írlandi aukist um 7% á ári sem er þrefalt meira en meðalhagavöxtur á evrusæðinu á sama tímabili

Fram kemur í Morgunkorninu að greiningaraðilar telja að fleiri lönd muni fylgja Írlandi inn í samdráttarskeið eftir birtingu talna um landsframleiðslu á þriðja ársfjórðungi þessa árs og eftir því sem óróinn á fjármálamörkuðum heims fer að hafa sterkari áhrif. Hafa Ítalía og Þýskaland verið nefnd sem líkleg til að vera næst í röðinni.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×