Erlent

Klofningur í samsteypustjórn Pakistan

 

Fyrrum forsætisráðherra Pakistan, Nawaz Sharif hefur dregið flokk sinn Múslimabandalagið úr samsteypstjórn, en flokkurinn er næststærsti stjórnmálaflokkur landsins.

Hann hefur verið í deilum við stærsta flokk landsins, Pakistanska þjóðarflokkinn um endurskipun dómara sem voru reknir af fyrrum forseta landsins, Pervez Musharraf. Þessum tveimur flokkum greinir einnig á hver eigi að verða næsti forseti landsins.

Sharif sagði blaðamönnum í Islamaband að Pakistanski þjóðarflokkurinn, sem ekkill Benazir Bhutto, Asif Zardari leiðir hefði ekki staðið við gefin loforð varðandi dómarana sem reknir voru.

Pakistanski þjóðarflokkurinn óttast að ef allir þeir dómarar sem Musharraf rak fengu störf sín aftur gætu þeir ógilt sakaruppgjöf sem gerði Zardari og Bhutto kleift að koma aftur til landsins síðasta ár. Ef slíkt gerðist gæti Zardari átt yfir höfði sér málsóknir vegna gamalla ákæra um spillingu.

Sharif sagði hins vegar að flokkur hans vildi stuðla að uppbyggilegri stjórnarandstöðu sem gefur til kynna að hann ætli ekki að reyna að rífa niður ríkisstjórnina. Zardari og Sharif unnu saman að ákæru til þess að hóta Musharraf sem leiddi til afsagnar hans í seinustu viku.

Á fréttavef BBC kemur fram að þetta muni að öllum líkindum ekki leiða til þess að ríkistjórnin falli þar sem Pakistanski þjóðarflokkurinn hafi aðra flokka með sér í ríkisstjórn. Hins vegar gæti orðið erfitt fyrir ríkisstjórnina að hafa svo valdamikinn mann í stjórnarandstöðu nú þegar glundroði ríkir í stjórnmálalífi landsins.

Sharif telur að á meðan forsetaembættið sé svona sterkt í Pakistan þá ætti að kjósa ópólitískan forseta, fremur en mann eins og Zardari sem ekki full sátt er á meðal þjóðarinnar að hafa. Forsetakosningar eru 6. september næstkomandi þar í landi og hefur Zardari boðið sig fram fyrir hönd flokks síns en flokkur Sharif boðið fram ópólitískan forseta.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×