Viðskipti innlent

SpKef tapar á seinni hluta ársins

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Geirmundur Kristinsson
Geirmundur Kristinsson
Hagnaður dróst saman um 60 prósent milli ára hjá Sparisjóðnum í Keflavík (SpKef) samkvæmt nýbirtu uppgjöri. Eftir skatta nam hagnaður sjóðsins árið 2007 tæplega 1,9 milljörðum króna, en var 4,8 milljarðar árið áður.

Mikill viðsnúningur varð í rekstri sjóðsins á seinni hluta ársins, en fyrstu sex mánuðina hafði verið methagnaður í rekstrinum upp á rúma 4,6 milljarða króna, en árið endaði sem fyrr segir tæplega 1,9 milljörðum.

Geirmundur Kristinsson, sparisjóðsstjóri SpKef, segir afkomu ársins viðunandi miðað við erfiðar markaðsaðstæður, en því sé ekki að neita að töluvert tap hafi verið á seinni hluta ársins. „Við eigum það stóra stöðu í Exista að það hafði mikil áhrif eftir að markaðir hrundu,“ segir hann. Eignin var færð á markaðsvirði í hálfsársuppgjöri.

„Þetta truflar auðvitað eitthvað en horfir öðruvísi við hjá okkur sem á sínum tíma stofnuðum félagið og áttum. Þá hét þetta Scandinavian Holding, varð síðan Meiður og svo Exista. Út af fyrir sig höfum við bara notað eignarhlutinn sem við fengum út úr Kaupþingi á sínum tíma, en höfum ekki verið að fjárfesta neitt.“

Geirmundur segir stöðu sparisjóðsins góða. „CAD-hlutfall sjóðsins er fyrir 20 prósent,“ segir hann og kveður lausafjárstöðu sjóðsins líka góða og fjármögnunarþörf ekki mikla. „Við höfum engar áhyggur. Ástandið í fjármálaheiminum er vitanlega ekki gott, en kemur verr niður á mörgum öðrum en okkur.“

Fram kemur í ársreikningi SpKef að stjórn sjóðsins leggi til að greiddur verði 25 prósenta arður til stofnfjáreigenda af endurmetnu stofnfé sjóðsins. Stofnféð nemur tæpum 13,6 milljörðum króna. Arður til stofnfjáreigendanna 1.626 næmi því um 3,4 milljörðum króna. Aðalfundur SpKef verður haldinn 11. mars.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×