Viðskipti innlent

Lánshæfishorfur ríkisins versna

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Breyttar lánshæfishorfur ríkisins eru raktar til lækkunar breytts mats Moody‘s á fjárhagslegum styrk bankanna; verra lánshæfi þeirra leiði sjálfkrafa til endurmats á áhættu ríkisins.
Breyttar lánshæfishorfur ríkisins eru raktar til lækkunar breytts mats Moody‘s á fjárhagslegum styrk bankanna; verra lánshæfi þeirra leiði sjálfkrafa til endurmats á áhættu ríkisins. Fréttablaðið/Valli
Horfum varðandi Aaa-lánshæfi íslenska ríkisins hefur verið breytt úr stöðugum í neikvæðar samkvæmt nýju mati alþjóðlega matsfyrirtækisins Moody‘s. Einkunnin er sú hæsta mögulega.

Breyttar horfur eru fyrst og fremst til komnar vegna lækkunar fyrirtækisins á fjárhagsstyrkleikaeinkunn Kaupþings, Glitnis og Landsbankans fyrir helgi, að því er fram kemur í tilkynningu sem Moody‘s sendi frá sér í gær.

Breytingin nær til einkunnar skuldabréfa ríkisins og fyrir landseinkunn innlána í erlendri mynt. Horfurnar haldast stöðugar fyrir skuldbindingar í erlendri og innlendri mynt.

Joan Feldbaum Vidra, sérfræðingur Moody‘s, segir í rökstuðningi fyrir ákvörðuninni að mikilvægur þáttur fyrir Aaa-einkunn ríkis sé bankakerfi með háa meðaleinkunn fyrir fjárhagslegan styrk og bendir á að ekkert annað land í Aaa-flokki hafi bankakerfi með einkunn undir C. Hún segir stjórnvöld þó fullfær um að fást við áfall í bankakerfinu en bætir við að neikvæðar horfur gefi til kynna þá skoðun Moody‘s að „frekari framrás bankakerfisins á erlendri grundu muni reyna á getu stjórnvalda til að bregðast við áfalli á virkan hátt“.

Í umfjöllun greiningardeildar Glitnis er bent á að Standard & Poor‘s hafi síðan í nóvember haft lánshæfismat ríkisins á neikvæðum horfum.

Greiningardeild Landsbankans segir boltann hjá stjórnvöldum. „Enda segir í tilkynningu Moody"s að breyttar horfur endurspegli ekki róttækt endurmat á lánshæfi íslenska ríkisins heldur áhyggjur af atriðum sem stjórnvöld geta tekið á,“ segir í Vegvísi Landsbankans og bætt er við að með þessu sé gefið til kynna að á næstunni þurfi að efla gjaldeyrisforða Seðlabankans og festa í sessi samstarf við erlenda seðlabanka, sem tæki af allan vafa um aðgengi að lausafé og hver hefði hlutverk lánveitanda til þrautarvara.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×