Viðskipti erlent

Viðar Þorkelsson nýr forstjóri Landic

Viðar Þorkelsson hefur verið ráðinn forstjóri Landic Property í stað Skarphéðins Berg Steinarssonar og tekur strax til starfa.

Viðar Þorkelsson var framkvæmdastjóri fjármálasviðs Stoða (áður FL Group) frá febrúar 2008. Á árunum 2006 til 2008 gegndi Viðar stöðu framkvæmdastjóra fjármála- og tæknisviðs 365 hf. Viðar starfaði á árunum 2000-2005 sem framkvæmdastjóri fjármála- og rekstarsviðs og síðar sem aðstoðarforstjóri Vodafone og fyrirrennara þess félags.

Á árunum 1988-2000 starfaði Viðar hjá Landsbanka Íslands, m.a. sem svæðisstjóri og útibússtjóri. Viðar lauk prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1988 og MBA gráðu frá Peter F. Drucker Management Center í Bandaríkjunum 1993.

Kristín Jóhannesdóttir, stjórnarformaður Landic Property segir í tilkynningu um málið: "Ég færi Skarphéðni Berg Steinarssyni bestu þakkir fyrir árangursríkt og gott samstarf. Undir stjórn Skarphéðins jók Landic Property umsvif sín verulega með kaupum og sameiningu fasteignafélaga á Norðurlöndum. Stjórn Landic Property væntir mikils af Viðari Þorkelssyni og telur að reynsla hans og hæfni muni nýtast félaginu vel við núverandi aðstæður."

Viðar Þorkelsson, nýr forstjóri Landic Property segir að það sé ánægjulegt að fá tækifæri að taka við stjórn Landic Property, sem er stórt félag með vandað eignasafn og öflugan hóp starfsmanna. "Þetta er í senn spennandi og krefjandi verkefni." segir hann.

Skarphéðinn Berg Steinarsson, fráfarandi forstjóri Landic Property segir að samstarf hans við stjórn og hluthafa hefur verið einstaklega gott og enginn ágreiningur verið um þá stefnu sem unnið hefur verið eftir. "Ég vil einnig þakka starfsfólki Landic Property fyrir mjög góð, ánægjuleg og árangursrík samskipti." segir hann.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×