Viðskipti innlent

Flýta viðræðum um samruna bankanna

Óli Kristján Ármannsson og Björn Ingi Hrafnsson skrifar
Erfiðleikar í rekstri margra af stærstu fjármálafyrirtækjum heims eru líklegir til að flýta fyrir því sem ýmsir telja nauðsynlegan samruna íslenskra fjármálafyrirtækja.

Markaðurinn hefur heimildir fyrir því að töluverður gangur sé kominn í samrunaviðræður Glitnis og sparisjóðsins Byrs, sem nýlega var breytt í hlutafélag. Þá er einnig til alvarlegrar skoðunar meðal stórra eigenda í Landsbankanum og Straumi að félögin tvö gangi í eina sæng á næstu dögum eða vikum.

Samkeppniseftirlitið hefur samruna Kaupþings og SPRON enn til skoðunar og hefur haft um nokkurt skeið. Heimildir Markaðarins herma að óánægja sé með það hversu lengi sú skoðun hefur tekið, því öll óvissa sé óþægileg á viðkvæmum tímum.

Einn heimildarmanna Markaðarins bendir á að samruni risafyrirtækjanna Bank of America og Merryl Lynch hafi verið keyrður í gegn á 48 klukkustundum og án athugasemda frá eftirlitsstofnunum. Hér taki það hins vegar margar vikur að fá skorið úr miklu smærri málum. Slíkar tafir geti verið afar kostnaðarsamar.

Búist er við að Fjármálaeftirlitið leggi blessun sína yfir hlutafjárvæðingu Byrs í þessari viku. Eigendur sparisjóðsins hafa átt í óformlegum viðræðum við stærstu hluthafa í Glitni um samruna og munu þær viðræður vera langt komnar.

Mikil tengsl eru milli stærstu hluthafa í Landsbankanum og fjárfestingabankanum Straumi. Björgólfur Guðmundsson er formaður bankaráðs Landsbankans, en sonur hans Björgólfur Thor er stjórnarformaður Straums. Bæði félögin sjá fram á auknar afskriftir, meðal annars vegna málefna Eimskipafélagsins, og er talið að sameinað félag yrði mun sterkara á eftir, með ágætt eiginfjárhlutfall og dreifðari áhættu.

Heimildarmenn Markaðarins segja að mikið verði um samruna á fjármálamarkaði á næstu dögum og vikum. Það sé einnig alþjóðleg þróun, því víða hafi lokast á aðgengi að fjármagni og það bitni einkum á smærri fjármálafyrirtækjum, til dæmis sparisjóðunum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×