Viðskipti innlent

Útsölur lykilþáttur vísitölu neysluverðs á næstu mánuðum

SHA skrifar

Útsöluáhrif verða veruleg á vístölu neysluverðs næstu tvo mánuði og munu gegna veigamiklu hlutverki í að halda henni í skefjum.

Í Hálffimm fréttum Kaupþings kemur fram að venju samkvæmt verki útsölur verulega til lækkunar verðlags á þessum tíma árs. Hins vegar er talið að áhrifin verði með öðrum hætti en venjulega . Ástæðan er að verðmælingin fer nú fram um miðjan júlí þegar útsölur eru vel á veg komnar en undanfarin ár hefur verðmælingin hins vegar átt sér stað í upphafi júlímánaðar þegar útsölur eru nýhafnar.

Þetta gæti einnig haft þau áhrif að útsöluáhrifin verði minni í ágúst en venjulega. Á móti kemur að að sala hefur verið með minnsta móti undanfarið sem þýðir að birgðastaða verslana er líklegast meiri en venjulega og því líklegt að útsölur dragist á langinn.

Spá 0,6% hækkun í júlí - hámarkinu náð í ágúst

Greiningardeild Kaupþings gerir ráð fyrir að vísitala neysluverðs hækki um 0,6% í júlí og mun þá 12 mánaða verðbólga standa í 13,2%. Útlit er fyrir að hámarkinu verði náð í ágúst í kringum 14%.

Í Hálffimm fréttunum segir jafnframt að „heimilin í landinu eru farin að halda fastar um pyngjuna og fresta kaupum á ýmis konar neysluvörum. Þetta mun halda aftur af verðbólguþrýstingi í neysluvarningi á næstu mánuðum. Gefi krónan frekar eftir eru áframhaldandi hækkanir þó óumflýjanlegar í flestum vöruflokkum."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×