Viðskipti innlent

Ungt framsóknarfólk harmar stöðu SPM

Stjórn félags ungra Framsóknarmanna í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu sendi í dag frá sér yfirlýsingu þar sem fjallað er um stöðu Sparisjóðar Mýrasýslu (SPM).

Yfirlýsingin er birt hér að neðan í heild sinni:

Tap eignarhalds Borgarbyggðar á SPM er blaut tuska framan í íbúa sveitarfélagsins sem hafa staðið í þeirri góðu trú að sjóðurinn stæði á traustum grunni í ljósi góðrar afkomu undanfarin ár og yfirlýsinga sveitastjórnarfulltrúa allt fram á síðustu misseri. Vegna skorts á aðhaldi og eftirliti með fjármunum sveitarfélagsins hefur sveitarfélagið Borgarbyggð undir stjórn meirihluta Sjálfstæðisflokks og Borgararlista tapað gífurlegum fjármunum.

Margt er gagnrýnivert í söluferli SPM. Það er t.d. sérstakt að enginn óháður aðili var fenginn til þess að meta stöðu sjóðsins og gera tillögur að því hvernig best mætti tryggja rekstur hans til framtíðar. Þá vekur það spurningar hvers vegna kjörnir fulltrúar í sveitastjórn Borgarbyggðar fengu aldrei í hendurnar gögn þannig að hægt væri að byggja ákvarðanatöku á faglegum forsendum. Það var einungis vegna þrálátra óska fulltrúa Framsóknarflokksins í bæjarráði að málið var kynnt sveitastjórn. Vegna þagnarskyldu sem ríkti um málið gátu einstakir fulltrúar ekki leitað sér sérfræðiaðstoðar á eigin vegum.

Íbúar Borgarbyggðar eiga kröfu á ítarlegum útskýringum frá ábyrgðarmönnum SPM og sveitastjórn Borgarbyggðar á því hvernig komið er fyrir sjóðnum. Stjórnin fagnar því boðun borgarafundar um málefni SPM á miðvikudaginn kemur. Þar þurfa skýr svör að koma fram og hvetur stjórnin íbúa Borgarbyggðar og aðra velunnara sparisjóðsins til þess að mæta og láta í sér heyra.

 










Fleiri fréttir

Sjá meira


×