Viðskipti innlent

Glitnir lánaði Glitni til að kaupa bréf Glitnis í Glitni og FL Group

Gamli Glitnir átti þriðjung í félaginu Stím sem var búið til kringum fjárfestingar í bankanum sjálfum og FL-Group. Bréfin sem Stím keypti í Glitni og FL-Group keypti það að mestu leyti af Glitni sjálfum og fyrir lán sem það fékk frá Glitni.

Mikil umræða hefur átt sér stað undanfarið um einkahlutafélagið Stím og erfitt hefur reynst að afla upplýsing um hver standi á bak við félagið. Fréttastofu tókst að komast að því að skráður eigandi félagsins væri Jakob Valgeir Flosason, útgerðarmaður frá Bolungarvík. Hann jafnframt eini stjórnarmaður félagsins. Jakob hefur ekki viljað tjá sig um starfsemi Stíms þar til nú. Í dag sendi hann frá sér yfirlýsingu vegna umfjöllunar um félagið undanfarið og hann sjálfan. Hann segir félagið ekki leynifélag, og að afar frjálslega hafi verið farið með staðreyndir í umfjöllun um félagið og persónu sína. Hann sjái sig því knúinn til að upplýsa um eignaraðild sína og aðkomu að félaginu, og hafi fengið leyfi annarra hluthafa til að birta hluthafalista þess.

Þar sést að Jakob á 7,5% í félaginu. Stærsti hluthafinn er hins vegar félag sem stofnað var af gamla Glitni og ætlað til endursölu en það félag átti þrjátíu og tvö og hálft prósent í bankanum. Komið hefur fram að Stím fékk tuttugu milljarða króna að láni frá Glitni til að kaupa bréf í Glitni og FL-Group og keypti félagið bréfin í Glitni af Glitni sjálfum. Þar með virðist svo vera að Glitnir hafi lánað félagi sem var að stærstum hluta í eigu bankans sjálfs til að kaupa bréf af bankanum sjálfum í bankanum sjálfum og FL-Group.













Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×