Viðskipti innlent

Lífeyrissjóðirnir standa sterkt þrátt fyrir áföll að undanförnu

Þrátt fyrir að tap flestra lífeyrissjóðanna af verðbréfum banka og fjárfestingarfélaga verði verulegt mun íslenska kerfið væntanlega enn verða eitt þeirra öflugustu á heimsvísu.

Staða íslenska lífeyrissjóðakerfisins var býsna sterk í þann mund sem fjármála- og gjaldeyriskreppan skall á landinu af fullum þunga.

Greining Glitins fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar kemur fram að hrein eign lífeyrissjóðanna til greiðslu lífeyris var 1.838 milljarðar kr. í lok september samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans. Hafði sú upphæð hækkað um 10,5% frá sama tíma í fyrra að krónutölu, en að raunvirði rýrnaði hrein eign hins vegar um 3% á tímabilinu.

Þótt lífeyrissjóðirnir hafi flestir orðið fyrir þungu höggi í október er staða Íslendinga í lífeyrismálum enn býsna góð í alþjóðlegum samanburði. Hrein eign sjóðakerfisins í septemberlok nam 140% af vergri landsframleiðslu (VLF) síðasta árs, sem er með því mesta sem gerist meðal þróaðra ríkja.

Erfitt er að meta hversu mikið eignir sjóðanna hafa rýrnað á undanförnum vikum, en gróft áætlað má gera ráð fyrir að eignarýrnunin nemi á bilinu 15 - 20%. Eftir sem áður munu eignir lífeyrisjóðanna nema u.þ.b. VLF þessa árs, og jafnvel heldur meira. Aðeins Holland og Sviss geta státað af svo digrum sjóðum til greiðslu lífeyris borgaranna, þótt Noregur hafi raunar sinn olíusjóð sem gegna á svipuðu hlutverki þegar fram í sækir.

Lætur nærri að eignir íslenskra lífeyrissjóða verði 5 milljónir króna á hvern Íslending. Hreint innflæði, þ.e. iðgjaldagreiðslur umfram lífeyrisgreiðslur, er einnig verulegt og verður svo áfram næstu árin vegna tiltölulega ungs meðalaldurs þjóðarinnar. Að því gefnu að hagkerfið rétti úr kútnum á nýjum áratug munu lífeyrissjóðirnir væntanlega ná aftur fyrri styrk og jafnvel eflast enn frekar til lengri tíma litið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×