Viðskipti innlent

Raunlækkun eignaverðs um 17 prósent á einu ári

MYND/Valgarður

Raunlækkun eignaverðs síðustu tólf mánuði nemur rúmum 17 prósentum samkvæmt eignaverðsvísitölu Kaupþings. Greint er frá þessu í hálffimmfréttum bankans og bent á eignaverð hafi lækkað þriðja mánuðinn í röð.

Raunlækkun eignaverðs í júlí nam 1,2 prósent en raunverð hefur lækkað í öllum mánuðum síðan í júlí á síðasta ári. Eignaverðsvísitala samanstendur af breytingum í verði hlutabréfa, skuldabréfa og fasteigna sem vegnar eru eftir hlutdeild í eignasöfnum heimilanna. Þróun eignaverðsvísitölu gefur því vísbendingu um almenna þróun á virði eigna heimila.

Bent er á að raunverð fasteigna hafi hækkað um 30 prósent á síðustu árum en viðsnúningur hafi hins vegar orðið á síðustu mánuðum og mælist tólf mánaða raunbreyting eignaverðs nú neikvæð sem nemur 17,4 prósentum.

„Hækkandi eignaverð hefur jafnan í för með sér svokölluð auðsáhrif, en neytendur telja sig ríkari er eignir hækka í verði og auka neyslu sína af þeim sökum. Þegar eignaverð lækkar eru áhrifin á hinn veginn og samdráttar gætir í einkaneyslu. Í sögulegu samhengi hefur heildarvelta greiðslukorta gefið sterkar vísbendingar um þróun einkaneyslu. Í því ljósi er áhugavert að líta til þess að einnig er fylgni milli eignaverðs og kortaveltu og hér til hliðar má sjá hin neikvæðu auðsáhrif. Þróun eignaverðsvísitölunnar varpar því frekara ljósi á samdrátt einkaneyslu sem má búast við að gera vart við sig í tölum annars ársfjórðungs," segir í hálffimmfréttum Kaupþings.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×