Erlent

Mikill samdráttur í bílasölu í Bandaríkjunum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/Topnews.com

Þótt erfiðleikar bandarískra banka hafi verið áberandi í fréttum undanfarið eru það mun fleiri sem eiga í vök að verjast þar vestra.

Sala nýrra bíla hefur tekið mikla dýfu í Bandaríkjunum undanfarið og hefur samdrátturinn numið 34 prósentum hjá Ford Motor Company einu saman. Bílaframleiðendur utan Bandaríkjanna eiga einnig í vök að verjast en það voru einmitt verksmiðjur Toyota og Honda í Japan sem leiddu lækkanir morgunsins á Asíumörkuðum og féllu bréf í hvoru fyrirtæki um rúmlega fjögur prósent.

Bandaríkjamenn hafa einnig fengið að finna óþyrmilega fyrir þrengingum á húsnæðismarkaði en það voru einmitt þær sem teygðu svo anga sína út í banka og fjármálastofnanir með þeim afleiðingum sem berlega hafa verið að koma í ljós undanfarnar vikur.

Sjö hundruð milljarða dala bankabjörgunaráætluninni sem öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti í gær er ætlað að stöðva þessa þróun og snúa henni við. Upphæðin jafngildir 2.300 dölum á hvern Bandaríkjamann, jafnvirði tæpra 250.000 íslenskra króna. Fjármálaspekingar vara þó við því að þetta sé engin töfralausn og seðlabankar um heim allan verði að lækka vexti til að ná fram lausn sem dugi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×