Viðskipti innlent

Icelandair og Finnair í samstarf

Gunnar Már Sigurfinnsson.
Gunnar Már Sigurfinnsson.

Icelandair og Finnair sömdu í gær um samstarf félaganna tveggja á flugleiðunum milli Íslands og Helsinki og á milli Helsinki og Varsjár í Póllandi.

Icelandair mun samkvæmt samkomulaginu annast flugið milli Íslands og Helsinki á Boeing 757 þotum sínum með íslenskum áhöfnum, en það verður kennt við bæði flugfélögin, þ.e. verður bæði Finnair-flug og Icelandair-flug. Hið sama gildir um flugið til Varsjár, en Finnair mun annast það.

Icelandair flýgur fjórum sinnum á viku til Helsinki í sumar, en í maí verða tvær ferðir í viku. "Þetta samkomulag er mjög ánægjulegt. Finnair hefur mjög góðar tengingar í leiðakerfi sínu við Asíumarkaði og Rússland, en við bjóðum í okkar kerfi mikla tíðni til Bandaríkjanna og Evrópu. Samstarfið veitir okkur nýjan aðgang að mörkuðum í austrinu og Finnair aðgang að mörkuðum í vestrinu. Báðir aðilar sjá því hag í þessu markaðssamstarfi", segir Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs í tilkynningu frá Icelandair.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×