Viðskipti innlent

Einkaneyslan dregst saman

MYND/365
Íslendingar halda fastar um budduna í dag en þeir gerðu í fyrra að því er tölur Seðlabankans gefa til kynna. Debetkortavelta dróst saman um 7,5 prósent í júlí frá sama mánuði í fyrra, „ef veltan er raunvirt með vísitölu neysluverðs án húsnæðis og fyrirtækjakort frátalin," að því er kemur fram í Morgunkorni Glitnis. „Heildarvelta debet- og kreditkorta án fyrirtækjakorta dróst saman um ríflega 11% á sama tíma. Viðsnúningur varð í kortaveltu í maí á þessu ári og var nálægt 6,5% samdráttur á raunveltu debetkorta í innlendri verslun og kreditkorta bæði í maí og júní."

Þá segir að á fyrstu fjórum mánuðum ársins hafi hins vegar góður vöxtur frá fyrra ári og hátt í 10% á fyrstu tveimur mánuðum ársins. „Tölur Seðlabankans um greiðslukortaveltu gefa sterka vísbendingu um hraðan viðsnúning einkaneyslu á 2. ársfjórðungi og ef marka má greiðslukortaveltu í júlí er framhald þar á," segir í Morgunkorni.

Þá er bent á að samkvæmt tölum Bílgreinasambandsins fækkaði nýskráningum bifreiða um 24,6% frá fyrra ári á fyrstu sjö mánuðum ársins en aukning hafi þó verið í nýskráningu bifreiða í byrjun árs. „Miðað við þessar tölur má ætla að samdráttur einkaneyslu hafi hafist á 2. ársfjórðungi. Þessi þróun er í samdæmi við væntingar okkar en í þjóðhagsspá okkar sem birt var í maí gerum við ráð fyrir 1,5% samdrætti einkaneyslu á þessu ári. Við eigum von á að frekari samdráttur verði í einkaneyslu það sem eftir lifir þessa árs og á því næsta."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×