Viðskipti innlent

Jólaverslunin í uppnámi ef ekki rofar til í gjaldeyrismálunum

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir að jólaverslunin sé í uppnámi ef ekki rofi til í gjaldeyrismálum þjóðarinnar á næstu dögum og vikum.

„Sem stendur fæst enginn gjaldeyrir hjá Seðlabankanum nema fyrir þrjá af nauðsynlegustu vöruflokkunum og það ástand hefur ekkert skánað," segir Andrés.

„Við teljum að stjórnvöld hafi dregið okkur á asnaeyrunum með yfirlýsingum um að gjaldeyrismálin séu að komast í lag og að Seðlabankinn sé að vinna í málinu," segir Andrés. Hins vegar sé sem betur fer einhver hluti af jólavörunum þegar kominn til landsins.

Andrés nefnir þá staðreynd að þótt samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF) verði tilkynnt á morgun eins og flestir búast við sé spurningin hve langan tíma það taki eftir það að koma á eðlilegum gjaldeyrisviðskiptum.

„Ég reikna með að stjórn IMF í Washington þurfi að fjalla um málið og það taki um viku í viðbót," segir Andrés. „Þá erum við komin inn í nóvember og síðan er ekki vitað hvað margar vikur í viðbót það taki að koma málunum í lag."

Andrés segir síðan, svona á léttari nótunum, að sá möguleiki sé til staðar að fresta jólunum. „Það eru jú fordæmi til fyrir slíku. Castro frestaði eitt sinn jólunum á Kúbu," segir Andrés.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×