Viðskipti erlent

Enn einn skellurinn á Wall Street

Nýjustu upplýsingar hins opinbera í Bandaríkjunum um samdrátt í framleiðslu og vísbendingar um aukið atvinnuleysi urðu til þess að svartsýni greip um sig í röðum fjárfesta vestanhafs í dag. Bankar og fjármálafyrirtæki hertu enn frekar tökin á sjóðum sínum og hömstruðu fjármagn með þeim afleiðingum að lánsfé varð enn dýrara en í gær. Upplýsingar um atvinnuleysi í síðasta mánuði verða birtar í Bandaríkjunum á morgun. Reiknað er með því að atvinnulausum hafi fjölgað á milli mánaða. Gangi það eftir er þetta níundi mánuðurinn í röð sem atvinnuleysi eykst vestra, að sögn Associted Press. Fjárfestar efast fyrst og fremst um að björgunaraðgerðir bandarískra stjórnvalda muni duga til að koma fjármálalífi heimsins á réttan kjöl. Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti aðgerðirnar síðustu nótt með nokkrum viðbótum en fulltrúadeild þingsins á eftir að kjósa um hana að nýju eftir að hafa fellt hana í vikubyrjun. Dow Jones-hlutabréfavísitalan féll um 3,22 prósent en Nasdaq-vísitalan um 4,48 prósent.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×