Viðskipti innlent

Segir aðra öldu fjármálakreppunnar að skella á Íslandi

Viðskiptablaðið Financial Times (FT) segir að Ísland sé nú að undirbúa sig fyrir aðra öldu fjármálakreppunnar sem þegar hefur lagt bankakerfi landsins í rúst. Um er að ræða að hundruðir milljarða kr. munu flæða út úr landinu um leið og krónan fer á flot aftur.

Um er að ræða erlenda eigendur íslenskra skulda- og ríkisbréfa sem bíða eftir fyrsta tækifærinu til að losa sig við bréf sín. Það kemur þegar krónan fer á flot aftur, væntanlega í næsta mánuði.

Ekki er vitað nákvæmlega hver heildarupphæðin er sem reikna má með að streymi út úr landinu á fyrstu dögunum en samkvæmt FT áætlar Seðlabankinn að upphæðin nemi um 400 milljörðum kr..

Samkvæmt frásögn FT bíða erlendir fjárfestar þess í örvæntingu að geta lokað stöðum sínum í íslensku bréfunum en markaðurinn hefur verið lokaður frá því að bankakerfið hrundi í byrjun október s.l..

FT varar hinsvegar við áformum Seðlabankans um að ætla að nota lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og fleiri aðilum til að halda gengi krónunnar uppi meðan á fyrrgreindu útflæði stendur.

Flot krónunnar er talið fyrsta skrefið í áttina að endurvekja trúverðugleika Íslands.

"Hvernig Seðlabankanum tekst til við bréfasöluna verður mælikvarði á hæfileika bankans á tímum þar sem traust á honum hefur dalað verulega," segir í Financial Times.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×