Viðskipti erlent

Bílasala í Bretlandi ekki minni síðan árið 1966

Bílasala í Bretlandi hefur ekki verið minni síðan árið 1966. Greinilegt er að Bretar hafa hætt við bílakaup í miklum mæli í síðasta mánuði. Það eru einkum bílar í dýrari kantinum sem seljast lítið eða ekki, bílar á borð við Aston Martin, Porsche og Cadillac.

Samkvæmt upplýsingum frá Samtökum bílaframleiðenda og seljenda (SMMT) minnkaði bílasalan í ágúst um 18,6% miðað við sama mánuð í fyrra að meðaltali.

Salan á Aston Martin bílum minnkaði mest á milli þessara mánuða eða um 67%, fór úr 58 seldum bílum í fyrra niður í 19 bíla í ár.

Paul Everitt framkvæmdastjóri SMMT segir að ágúst sé yfirleitt rólegasti mánuður ársins hvað bílasölu varðar. Alls hafi salan í ágúst nú numið rúmlega 63.000 bíla en það sé minni fjöldi en í sama mánuði árið 1966.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×