Viðskipti innlent

Íslensk útrás á Azoreyjum

Frá Azoreyjum.
Frá Azoreyjum.

Iceland Drilling (UK) Ltd, dótturfélag Jarðborana, hefur undirritað samning við orkufyrirtækin Sogeo og GeoTerceira á Azoreyjum um borun á rannsóknar- og vinnsluholum háhitasvæðum á eyjunum og verður orkan nýtt til raforkuframleiðslu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Jarpborunum. Þar segir ennfremur að samningurinn sé sá langstærsti sinnar tegundar sem gerður hefur verið á þessum slóðum.

„Um er að ræða tvö tengd verkefni fyrir þarlend orkufyrirtæki, Sogeo og Geoterceira. Verkefnin eru unnin á eyjunum São Miguel og Terceira. Verðmæti samningsins er allt að 1,8 milljarðar og er fyrirhugað að nýta orkuna á eyjunum mestmegnis til raforkuframleiðslu

Vaxandi umsvif

Að sögn Bents S. Einarssonar, forstjóra Jarðborana, hafa Azoreyjar reynst félaginu drjúgt markaðssvæði. "Það er engin tilviljun að við höfum unnið okkur traustan sess á þessum markaði. Við byrjuðum smátt, fyrst með kaldavatnsborunum, og lögðum fyrst og fremst áherslu á að byggja upp þekkingu og treysta tengsl við heimamenn. Síðar komu svo tækifæri til verkefna á háhitasvæðum og þá stóðum við vel að vígi í samkeppni um verktöku, ekki bara vegna staðbundnar þekkingar heldur líka vegna reynslunnar af háhitaborunum við krefjandi aðstæður á Íslandi. Það er okkur sérstakt ánægjuefni hve verkefnin á Azoreyjum hafa vaxið myndarlega á síðustu árum."

Asoreyjar liggja um 1.500 km vestur af Portúgal. Íbúar eru nokkru færri en Íslendingar og býr yfir helmingur þeirra á stærstu eyjunni, São Miguel. Ekki er langt síðan byrjað var að nýta jarðhita á São Miguel og kom Iceland Drilling að öflun þeirrar orku. Vegna góðrar reynslu var ákveðið að auka nýtinguna verulega og bora fleiri holur. Að sögn Bents er stefnt að því að jarðhiti muni skila yfir 40% af orkuþörf á eyjunni þegar búið verður að tengja nýju borholurnar við orkuverið. Á hinn bóginn er nýting jarðvarma engin fyrir á eyjunni Terceira en hugmyndin er að reisa þar raforkuver í framhaldi af borununum. "Það er reiknað með að orkuverið á Terceira komist í gagnið árið 2011 og menn áætla að það muni þjóna strax 40% af orkuþörfinni á eyjunni." Bent segir að jarðhitaverkefni á Azoreyjum hafi verið styrkt af Evrópusambandinu í ljósi þess að um sé að ræða raunhæfar leiðir til að auka sjálfbærni eyjanna um framboð á umhverfisvænni orku.

Gjöful háhitasvæði

Ari Stefánsson, framkvæmdastjóri Jarðborana, segir að að alls muni um 30 manns koma að þessum borframkvæmdunum, Íslendingar, heimamenn og Ungverjar. "Við flytjum borinn Jötun út nú í desember, hefjum framkvæmdir í byrjun árs 2009 og gerum ráð fyrir að ljúka verkefninu á miðju ári 2010." Að sögn Vilhjálms er fyrirhugað að bora 3-6 holur fyrir Geoterceira á svæði sem heitir Pico Alto og 4-7 holur fyrir Sogeo á nokkrum svæðum fyrir raforkustöðina á Ribera Grande. "Háhitasvæðin þarna eru býsna gjöful enda liggja þau á Atlantshafshryggnum eins og Ísland. Við áætlum að bora niður á 1.000 til 1.500 m dýpi og verðum þá væntanlega komnir niður á 300° hita."

Vilhjálmur segir að aðalatvinnuvegir á þessum slóðum séu fiskveiðar og landbúnaður en ferðaþjónsta sé vaxtarbroddur í atvinnulífinu. "Það er ekki síst vegna ferðaþjónustunnar að þarna eru gerðar miklar umhvefiskröfur til verktaka engu síður en á Íslandi. Það er óhætt að segja að áherslur okkar á góða umgengni hafi fallið vel í kramið hjá heimamönnum."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×