Viðskipti innlent

Jón Helgi ræddi birgjamálið og samskiptin við Baug

Jón Helgi Guðmundsson, forstjóri Norvik var í hádegisviðtali Stöðvar 2 í dag. Þar ræddu þeir Sindri Sindrason um Norvik, efnahagsástandið og framtíð fyrirtækisins hér á landi og erlendis. Sindri spurði Jón Helga einnig út í samkepnina hér á landi en hans fyrirtæki keppa við fyrirtæki í eigu Baugs á mörgum sviðum.

„En ég á enga sjónvarpsstöð," sagði Jón Helgi kíminn, og vísaði í eignatengsl 365 og Baugs. Jón vildi ekki segja að sambandið á milli þessara tveggja viðskiptablokka væri stirt heldur væri í raun ekki um neitt samband að ræða. „Við erum bara að keppa á þessum harða samkeppnismarkaði." Jón samsinnti því þó að hann hafi verið gagnrýninn á Baug og sérstaklega tengsl þess fyrirtækis við fjölmiðlafyrirtæki. „Ég hef nú oft verið beðinn um að koma að fjölmiðlum en hef af prinssippástæðum sagt að mér fyndist óeðlilegt að aðilar sem eru stórir auglýsendur sem eru stórir á markaði eigi stóran hlut í fjölmiðlum."

Jón sagðist telja að eigendur geti því haft áhrif á fjölmiðla sína. „Er fólk ekki húsbóndahollt, og á það ekki að vera það?", spurði Jón.

Sindri ræddi einnig við Jón um birgjamálið sem kom upp í síðustu viku þegar verslanir Norvik fóru fram á að lengja greiðslufrest til birgja sinna. Hann sagði ekkert óeðlilegt við þessa tilhöfun. Fyrirtækið væri einungis að fara fram á þetta fyrirkomulag til þess að einfalda greiðsluferlið. Enginn væri neyddur til að fallast á þetta og þeir gætu þá snúið viðskiptum sínum annað.

Pétur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Litavers, hefur verið mjög gagnrýninn á þetta fyrirkomulag Norvikur í fjölmiðlum og Jón Helgi minntist á hans þátt í málinu. Hann sagðist hafa látið kanna málið og komið hefði í ljós að Norvik hefði verslað við Litaver fyrir um ellefu þúsund krónur. „Það var borgað skilvíslega, en hins vegar verslaði hann hjá okkur, en hann tók sér töluvert lengri gjaldfrest sjálfur en þessa 60 daga og við þurftum að fá utanaðkomandi aðstoð til að fá hann til að borga."

Jón bætti því við að Norvik væri viss um rétt sinn í málinu en hins vegar væri fyrirtækið að láta kanna hvort umfjöllun fjölmiðla upp á síðkastið hafi verið samkvæmt lögum. „En ég tek þetta mál ekkert nærri mér að öðru leyti," sagði Jón Helgi Guðmundsson, forstjóri Norvik.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×