Viðskipti innlent

Gefast upp á því að selja Sterling

Skiptastjórar í þrotabúi Sterling hafa gefist upp á því að finna kaupanda að búinu þannig að hægt verði að endurreisa fyrirtækið. Frá þessu greinir á vef danska viðskiptablaðsins Börsen.

Viðræður um milli skiptastjóra og hugsanlegs kaupanda stóðu fram á nótt en samningar náðust ekki við flugmenn og flugþjóna og því fór sem fór. Þetta þýðir að um 430 fyrrverandi starfsmenn Sterling þurfa því að leita sér að vinnu á ný.

Haft er eftir Lisu Bo Larsen, einum af skiptastjórum Sterling, að niðurstaðan sé grátleg því samningar um allt annað hafi verið klárir. Til hafi staðið að Sterling hæfi flug á ný um helgina undir stjórn nýrra eigenda.

Eins og kunnugt er varð Sterling, sem var í eigu eignarhaldsfélagsins Fons, gjaldþrota í lok síðasta mánaðar. Síðan þá hefur verið reynt að selja þrotabúið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×