Viðskipti innlent

Óvíst með lán Björgólfsfeðga til Eimskips

MYND/Getty Images

Óvissa er nú um það hvort feðgarnir Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor Björgólfsson geti veitt Eimskip 26 milljarða króna lán fari svo að ábyrgð fyrirtækisins vegna gjaldþrots XL Leisure Group falli á Eimskip. Þetta kemur fram í tilkynningu Eimskips til Kauphallarinnar.

Þar segir að kjarnastarfsemi Eimskips í góðum rekstri og áfram sé unnið að langtímafjármögnun félagsins. Vegna atburða liðinna daga og óskar Samson eignarhaldsfélags um greiðslustöðvun sé hins vegar mikil óvissa um fyrirhuguð kaup Björgólfsfeðga og fjárfesta á kröfunni á hendur Eimskipafélaginu.

Krafa þessi er tilkomin vegna gjaldþrots XL. Þetta leiði til þess að óvissa sé um langtímafjármögnun félagsins. „Áfram er unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins og sala eigna er í eðlilegu horfi. Flutningastarfsemi Eimskips er í góðum rekstri, dagleg starfsemi er tryggð og þjónusta félagsins er með óbreyttum hætti," segir Eimskip í tilkynningu.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×