Viðskipti innlent

Brýnast að eyða óvissu starfsmanna

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Finnur Svein­björnsson fyrir miðju.
Finnur Svein­björnsson fyrir miðju.
Stjórn Nýja Kaupþings hefur ráðið Finn Sveinbjörnsson sem bankastjóra. Starfsmönnum var tilkynnt um ráðninguna með tölvupósti snemma dags í gær. Finni var boðinn starfinn kvöldinu áður, en hann hefur störf í dag.

„Brýnustu verkefnin eru auðvitað að huga að skipuriti í nýjum banka og starfsmannamálum,“ segir Finnur og kveður reynt að leiða þau mál til lykta á allra næstu dögum. Nýtt skipurit segir hann væntanlega verða kynnt seinni partinn í dag og starfsmannamál skýrist svo í framhaldi af því.

„Starfsfólk hefur vitanlega verið hér í nokkurri óvssu og því fyrr sem henni er eytt þeim mun betra.“

Næsta mál á dagskrá segir Finnur svo að aðstoða hér bæði fyrirtæki og einstaklinga sem kunni að hafa lent í erfiðleikum með fjármál sín í þeim hremmingum sem þjóðin gangi í gegn um.

Með ráðningu Finns hafa verið ráðnir bankastjórar yfir alla þrjá bankana sem ríkið tók yfir. Birna Einarsdóttir var hjá Nýja Glitni og Elín Sigfúsdóttir hjá Landsbankanum.

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra segir að tímabundnar stjórnir sem skipaðar hafa verið yfir nýju bankana fari með mikið hlutverk og bendir á að á næstu vikum verði kosnar varanlegar stjórnir.

„En fyrir einstök verk stjórnar verða þeir að svara sjálfir,“ segir hann spurður um hvernig á því standi að leitað hafi verið út fyrir Kaupþing eftir nýjum forstjóra, en inn í starfsmannahóp bæði Glitnis og Landsbankans.

Ólafur Hjálmarsson, stjórnarformaður Nýja Kaupþings, hefur ekki svarað ítrekuðum viðtalsbeiðnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×