Viðskipti innlent

Fitch jákvætt gagnvart lántöku til að styrkja gjaldeyrisforðann

Í sérriti sem matsfyrirtækið Fitch gaf út um Ísland í gær er eytt töluverðu púðri í að fjalla um áhrif lántöku ríkissjóðs til styrktar gjaldeyrisforða Seðlabankans.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Glitnis. Þar segir að Fitch virðist jákvætt gagnvart slíkri aðgerð. Fitch-menn benda þannig á að þótt tekið væri lán upp á 5-10 milljarða dollara myndi það ekki hafa áhrif á hreina erlenda skuldastöðu ríkissjóðs fyrr en farið væri að nýta þetta fé til aðstoðar íslensku bönkunum. Því ætti slík lántaka ekki að hafa mikil áhrif á lánshæfi ríkissjóðs næsta kastið.

Fitch telur að jafnvel þótt skoðuð sé sviðsmynd þar sem frekari áföll myndu hellast yfir íslenska bankakerfið á þessu ári og hinu næsta muni bættur aðgangur Seðlabanka að lausafé í erlendum gjaldmiðlum auka líkur á að stjórnvöld geti staðið við bakið á bönkunum.

Athygli vekur að matsfyrirtækið gefur sér til viðmiðunar stærðargráðu á hinu erlenda láni sem jafngildir allt að fjórföldun á hinum eiginlega gjaldeyrisforða Seðlabankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×