Viðskipti innlent

Koma á fót milljarðasjóði til að fjárfesta í nýsköpun

MYND/GVA

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, stóru bankarnir þrír og stærstu lífeyrissjóðir landsins hafa komist að samkomulagi um að koma á fót sérstökum sjóði til að fjárfesta í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum sem þykja vænleg til vaxtar og útrásar.

Sjóðurinn nefnist Frumtak og verða lagðir til nærri fimm milljarðar í hann á næstu árum. Frá þessu greindi Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra á ársfundi Nýsköpunarsjóðs í morgun.

Sérstakt 1,5 milljarða króna framlag til Nýsköpunarsjóðs af tekjum ríkissjóðs vegna sölu Símans er stofninn í Frumtaki. Stóru bankarnir , Glitnir, Kaupþing banki og Landsbanki, leggja fram 1,5 milljarða króna og sex af stærstu lífeyrissjóðum landsins leggja fram 1,6 milljarða króna. Sú tala gæti hækkað eftir því sem segir í tilkynningu.

„Markmið Frumtaks er að byggja upp öflug fyrirtæki sem geta verið leiðandi á sínu sviði og um leið skilað góðri ávöxtun til fjárfesta. Frumtaki er ætlað að fjárfesta í fyrirtækjum sem eru komin af klakstigi og er áskilið að fyrir liggi ítarlegar viðskiptaáætlanir. Frumtaki er heimilt að fjárfesta erlendis að því marki sem nauðsynlegt er vegna útrásar eða markaðssóknar íslenskra fyrirtækja á erlenda markaði, ekki síst þegar möguleiki er á sameiningu eða samruna við fyrirtæki í eigu Frumtaks," segir einnig tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×