Innlent

Tímaspursmál hvenær bjarga þarf hinum viðskiptabönkunum

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir skrifar
Ragnar Önundarson.
Ragnar Önundarson.
Fyrr eða síðar þarf að fara í björgunaraðgerðir vegna hinna viðskiptabankanna líkt og gert var með Glitni í gær. Þetta sagði Ragnar Önundarson viðskiptafræðingur og fyrrverandi framkvæmdastjóri Íslandsbanka, þegar Vísir náði tali af honum í gær.

Fyrir rúmum þremur árum skrifaði Ragnar fjölda greina í Morgunblaðið þar sem hann varar við því að uppgangurinn í efnahagslífinu sé byggður á veikum grunni. Bólan muni að öllu óbreyttu springa innan fárra ára.

Atburðir gærdagsins komu Ragnari því ekki á óvart. Hann fagnar aðgerðum ríkisstjórnarinnar til bjargar Glitnis, og segir þær gott fyrsta skref. Þær björgunaraðgerðir sem hinir bankarnir þurfi á að halda verði með öðru sniði.

„Vandi Glitnis var að sumu leiti öðruvísi en annarra banka. Hann hafði gengið lengra en aðrir bankar í að fjármagna sig með stuttum lánum og endurlána langt, sem er varasamt," segir Ragnar.

„Þegar kemur að hinum bönkunum er vandinn öðruvísi, hann liggur meira á eignahlið og meira í óvissu um verðmæti fjárfestinga og lánveitinga, ekki síst erlendis. Þó fjármögnun þeirra banka sé í betra horfi og gefi þeim þannig lengri frest þá kemur að skuldadögunum," segir Ragnar. „Það þarf aðgerðir en líklega öðru vísi aðgerðir til að styðja þá. Það verður vegna útlánatapa og niðurfærsla á fjárfestingum erlendis."

Ragnar hefur starfað í bankakerfinu frá árinu 1976, og upplifað fimm efnahagslægðir á því tímabili. Hann segir þetta alvarlegustu lægðina síðan í alheimskreppunni miklu á fjórða áratugnum.

„Það gæti tekið fjögur til fimm ár að fara í gegnum þetta, ekki tvö ár eins og sumir vilja meina." segir Ragnar. Hann segir að erfiðleikunum muni fylgja útlánatöp fyrir banka og gjaldþrot heimila og fyrirtækja. „Það er ekki fyrr en húsnæðislánavandinn er leystur í hverju hagkerfi fyrir sig sem einkaneyslan verður aftur eðlileg. Ofmetnar og yfirveðsettar á kjörum sem fjöldinn ræður ekki við er vandamál sem ekki er hægt að fara í kringum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×