Viðskipti innlent

Aldrei á stefnuskránni að selja Sterling

Pálmi Haraldsson er hoppandi illur út í danska fjölmiðla.
Pálmi Haraldsson er hoppandi illur út í danska fjölmiðla.

Pálmi Haraldsson í Fons segir það aldrei hafa verið á stefnuskránni hjá félaginu að selja danska flugfélagið Sterling líkt og haldið er fram í viðskiptablaðinu Börsen í dag.

"Ég er fjúkandi reiður yfir þessum fréttaflutningi. Það hringdi til mín danskur blaðamaður á föstudag og spurði hvort ég væri að selja hlutinn í Sterling. Ég svaraði því neitandi. Hann spurði mig í tvígang aftur að því sama og ég svaraði aftur neitandi. Loks spurði ég hann hvort ég þyrfti að neita þessu á fimmtán tungumálum til að hann skildi þetta," segir Pálmi við Vísi.

Hans skoðun er danskir fjölmiðlar séu vísvitandi að meiða íslenska fjárfesta með skrifum sínum og íhugar að skella á næsta danska blaðamann sem hringir í hann.

Svör Pálma komu þó ekki í veg fyrir það að Börsen birti frétt um að Fons og Sund, sem eiga Northern Travel Holding, móðurfélag Sterling, ásamt FL Group, væru á leið út úr Sterling.

Pálmi segir það af og frá. "Það hefur aldrei verið á stefnuskránni að selja Sterling eða önnur félög innan Northern Travel Holding. Við útilokum auðvitað ekki sameiningu á þessu ári því það verður mjög þungt vegna hækkandi eldneytisverðs en sala er ekki á döfunni," segir Pálmi.

Og bendir á að það væri í raun óðs manns æði að selja þessi félög sem ganga öll vel. "Af hverju ætti ég að selja? Iceland Express skilaði bestu afkomu sinn frá upphafi í fyrra, Ticket hefur aldrei gengið betur en nú á fyrsta ársfjórðungi, Sterling skilaði sínum besta rekstrarárangri í marga áratugi á síðasta ári og Astreus er í góðum málum," segir Pálmi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×