Viðskipti innlent

Funda um framtíð deCode í Nasdaq-kauphöllinni

DeCODE hefur farið fram á fund með nefnd á vegum Nasdaq-kauphallarinnar til þess að kynna áætlun félagsins um hvernig það hyggst mæta kröfum Nasdaq um lágmarksverðmæti hluta.

Samkvæmt reglum Nasdaq þarf markaðsverðmæti hlutabréfa í deCODE að vera 50 milljónir dollara að lágmarki. Heildarverðmæti hlutabréfa í deCODE var hins vegar um 26 milljónir dolllara nú í vikunni en bréfin voru í 43 sentum á hlut við lokun markaða þann 3. nóvember.

Nefnd sem Nasdq hefur falið að fjalla um málið mun hitta fulltrúa deCODE innan 45 daga en viðskipti verða með bréfin á meðan málið er til umfjöllunar. Fallist nefndin ekki á tillögur deCODE verður félagið tekið af Nasdaq Global hlutabréfamarkaðnum en getur þess í stað sótt um aðgang að svokölluðum Nadaq kapital markaði.

Bréfin í DeCODE hafa hrunið undanfarin ár á Nasdaq hlutabréfamarkaðnum en gengi DeCODE fór hæst í 28,75 dali. En fyrir skráningu bréfanna á Nasdaq voru dæmi um að þau gengju kaupum og sölum á gráum markaði hér á Íslandi á rúma sextíu dali á hlut.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×