Viðskipti innlent

Neikvæðar horfur á hlutabréfamarkaði til áramóta

Greining Glitnis telur horfurnar fyrir íslenskan hlutabréfamarkað neikvæðar til loka árs og sér ekki kauptækifæri í íslenskum hlutabréfum horft til skamms tíma.

Afkomuspá greiningarinnar var birt í Morgunkorni hennar í dag. Þar segir að afkomuhorfur flestra félaga hafa versnað samfara því sem aðstæður hafa versnað á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Ársins 2008 verði minnst í sögubókum fyrir það ástand sem nú ríkir á fjármálamörkuðum. Erlend fjármögnun er lykillinn að viðsnúningi hlutabréfamarkaðarins.

„Okkar mat er að Úrvalsvísitalan muni lækka fram til áramóta og standa í 4.000 stigum í lok árs. Við reiknum með nokkuð snörpum viðsnúningi á fyrri hluta næsta árs samhliða bættum aðstæðum á alþjóðlegum lánsfjármörkuðum og spáum að vísitalan standi í 4.900 stigum um mitt næsta ár. Horft til næstu tólf mánaða teljum við kauptækifæri í bréfum Marels og Bakkavarar," segir í Morgunkorni greiningarinnar.

Greining Glitnis segir að lykilþáttur í viðsnúningi á innlendum hlutabréfamarkaði er erlend fjármögnun. Fréttir af fjárfestingu erlendra aðila hér á landi og erlendri lánsfjármögnun eru því vísar til að hleypa lífi í markaðinn. Af þróun lánsfjárkrísunnar á erlendum mörkuðum er vart hægt að búast við umtalsverðum bata á þessu ári. Krísan hefur verið að grafa sig dýpra á síðustu vikum. Áhættufælni hefur aukist og skuldatryggingaálag hækkað verulega.

Stórir hlutar alþjóðlegra lánsfjármarkaða eru enn því sem næst lokaðir, spár um afkomu fjármálafyrirtækja í helstu iðnríkjum hafa verið lækkaðar verulega og lánshæfiseinkunnir margra þeirra sömuleiðis.

„Eflaust mun það taka eitthvað fram á næsta ár að endurvinna traust lánveitenda og fjárfesta og snúa hlutabréfamarkaðnum hér heima úr því lækkunarferli sem hann hefur verið í yfir í hækkun," segir í Morgunkorninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×