Viðskipti innlent

Greiningardeild Kaupþings býst við 12,6 prósenta verðbólgu í maí

Ásgeir Jónsson er forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings.
Ásgeir Jónsson er forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings.

Greiningardeild Kaupþings hefur endurskoðað verðbólguspá sína fyrir maímánuð og gerir nú ráð fyrir 1,6 prósenta verðbólgu í maí þannig að tólf mánaða verðbólga verði 12,6 prósent. Þetta kemur fram í hálffimmfréttum Kaupþings.

Greiningardeildin bendir á að húsnæðisverð í apríl hafi lækkað um 1,7 prósent sem sé talsvert meiri lækkun en greiningardeildin hafði gert ráð fyrir. „Þá hefur krónan verið að styrkjast sem í kjölfarið leiddi til þess að hluti af verðhækkun eldsneytis síðustu vikurnar gekk til baka.“

Greiningardeild Kaupþings segir enn fremur að viðsnúningur krónunnar síðustu daga virðist ætla að halda aftur af verðlagshækkunum en gengi krónunnar hafi nú styrkst um átta prósent á síðustu sex dögum.

„Þá hefur húsnæðismarkaðurinn sýnt veruleg kólnunarmerki og því allt útlit fyrir að húsnæðisliðurinn nái loksins að draga úr verðbólguhraðanum í stað þess að auka hann líkt og verið hefur síðustu misserin. Að mati Greiningardeildar er því líklegt að mesti verðbólgukúfurinn hafi gengið yfir og að nú þegar líður á seinni hluta ársins muni draga hratt úr hraða verðbólgunnar. Megin óvissuþættir um þróun verðlags á næstu mánuðum snúa að þróun gengis og hráefnaverðs úti í heimi," segir í hálffimmfréttum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×