Innlent

Opinber rannsókn á Hafskipsmálinu

MYND/Kompás

Ríkissaksóknari mun fela lögreglustjóra að annast opinbera rannsókn á Hafskipsmálinu svokallaða.

Lögfræðingarnir Ragnar Aðalsteinsson og Sigríður Rut Júlíusdóttir fóru 2. október fram á það fyrir hönd Björgólfs Guðmundssonar, Páls Braga Kristjónssonar, Helgu Thomsen, Þórðar H. Hilmarssonar og Helga Magnússonar að málið verði rannsakað.

Valtýr Sigurðsson, ríkissaksóknari, telur rétt að fallast á kröfuna þegar litið er til einkahagsmuna fimmmenninganna og þeirra almannahagsmuna sem tengjast því að fjöldi manna sem störfuðu á vettvangi ákæruvalds og dómstóla á þessum tíma eru bornir sökum um brot í opinberu starfi.

Tveir dómarar Hæstaréttar, þeir Markús Sigurbjörnsson og Gunnlaugur Claessen, hvöttu ríkissakssóknara á mánudaginn til að verða við beiðni um opinbera rannsókn á Hafskipsmálinu.

Hafskipsmenn telja að nýjar upplýsingar séu komnar fram sem bendi til þess að Gunnlaugur og Markús hafi komið óeðlilega að Hafskipsmálinu en skipafélagið varð gjaldþrota árið 1985. Gunnlaugur Claessen var á þessum tíma ríkislögmaður en Markús Sigurbjörnsson borgarfógeti í skiptarétti.

Á sínum tíma voru sex Hafskipsmenn, þeirra á meðal Björgólfur Guðmundsson, hnepptir í gæsluvarðhald vegan málsins. Þeir hafa haldið því fram að Hafskip hafi verið knúið að ósekju í gjaldþrot.

Kompás fjallaði ítarlega um málið síðastliðið mánudagskvöld.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×