Viðskipti innlent

SPRON tapar á þriðja ársfjórðungi

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Guðmundur Hauksson forstjóri SPRON.
Guðmundur Hauksson forstjóri SPRON.
Tap SPRON á þriðja ársfjórðungi nam 3,1 milljarði króna eftir skatta, samkvæmt uppgjöri sem birt var í gær.

Þar kemur fram að áframhaldandi neikvæð þróun á hlutabréfamarkaði á fjórðungnum hafi valdið gengistapi sem numið hafi tæplega 3,5 milljörðum króna.

Hreinar vaxtatekjur námu 1,1 milljarði króna og jukust um 47 prósent frá sama tíma í fyrra. Eiginfjárhlutfall SPRON var í lok fjórðungsins 10,1 prósent.

„Afkoman fyrir ársfjórðunginn endurspeglar stöðuna fyrir hrun viðskiptabankanna þriggja,“ er haft eftir Guðmundi Haukssyni, forstjóra SPRON, í tilkynningu um uppgjörið.

Hann segir enn ekki öll kurl komin til grafar eftir fall bankanna og SPRON hafi ekki farið varhluta af því.

„En aðstæður gera það að verkum að erfitt er að meta verðmæti eigna og aðrar stærðir af fullri nákvæmni. Við höfum hins vegar gripið til aðgerða til að styrkja stöðu SPRON með langtímahagsmuni bankans að leiðarljósi og að því ferli koma allir helstu hagsmunaðilar. Niðurstöðu þeirra aðgerða er að vænta innan skamms.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×