Erlent

Pólski forsætisráðherrann vill vana barnaníðinga

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Donald Tusk.
Donald Tusk.

Pólski forsætisráðherrann Donald Tusk segist fylgjandi því að vana barnaníðinga með lyfjagjöf og í raun sé lagaheimildin fyrir hendi. Dómara sé hins vegar ekki skylt að gera dæmdum barnaníðingi að sæta sálfræðimeðferð.

Tusk segist vel gera sér ljóst að mannréttindasinnar muni rísa upp til varnar níðingunum. „Ég tel hins vegar ekki að við getum kallað þessa einstaklinga menn, barnaníðingar eru skepnur og ég tel ekki að vörn mannréttinda eigi við í tilfelli þeirra," sagði Tusk í viðtali við Polskie Radio.

Ráðamenn í Póllandi íhuga nú að taka upp vönun barnaníðinga sem hluta af refsingu þeirra séu þeir sekir fundnir. Um 850 tilfelli, þar sem kynferðisleg misneyting gagnvart börnum á sér stað, koma upp árlega í Póllandi og er skemmst að minnast nýjasta málsins þar sem faðir hafði nauðgað dóttur sinni skipulega árum saman. Er pólskur almenningur sleginn óhug og raddir um úrbætur sem virka orðnar háværar.

Vilja að tekið sé harðar á níðingum

Ljóst er að Tusk talar ekki að öllu leyti fyrir daufum eyrum þar sem nýleg pólsk könnun sýnir að 94 prósent Pólverja vilja að tekið sé harðar á barnaníðingum. Í þeirri könnun lýstu 17 prósent sig mótfallin vönun með lyfjagjöf.

Lech Kaczynski Póllandsforseti hefur heitið stuðningi sínum við að herða refsilöggjöf er lýtur að barnaníðingum og umboðsmaður pólska þingsins hefur látið í veðri vaka að jafnvel væri réttlætanlegt að beita þessu úrræði einnig þegar um nauðgun gegn fullorðinni manneskju er að ræða. Þá má geta þess að önnur könnun leiddi í ljós að þriðjungur aðspurðra vill taka upp vönun með skurðaðgerð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×