Skoðun

Endurreisnin hafin

Ragnheiður Hergeirsdóttir skrifar

Sveitarfélagið Árborg og Atvinnuþróunarfélag Suðurlands stóðu nýlega fyrir fundi með atvinnurekendum í Árborg til að fara yfir stöðu mála í ljósi efnahagsástandsins. Í greiningu sem unnin var af CreditInfo Ísland kom í ljós að vandi fyrirtækja í Árborg er mikill.

Um helmingur fyrirtækja flokkaðist í hærri áhættuflokkum samkvæmt CIP áhættumati CreditInfo Ísland og 12,3% eiga í bráðri hættu á að verða gjaldþrota á næstunni. Hlutfall fyrirtækja sem eru á vanskilaskrá (16%) í byrjun nóvember 2008 er einnig hærra en landsmeðaltalið (13,3%). Ástæðuna má rekja til að áberandi hátt hlutfall fyrirtækja í sveitarfélaginu eru í byggingariðnaði eða eiga í fasteignaviðskiptum, eða um 40% af heildarfjölda fyrirtækja.

Menn hafa séð árangurinn af Gera-ekki-neitt aðferðinni margumtöluðu. Því er hér ekki til setunnar boðið. Sem fyrsta skref í stuðningi við atvinnulífið hefur verið ákveðið að vinna að stofnun Þekkingargarða á Selfossi í samstarfi við Háskólafélag Suðurlands, Fræðslunet Suðurlands og aðrar mennta- og rannsóknastofnanir á Suðurlandi. Þekkingargarðurinn mun leggja áherslu á samstarf við fyrirtæki í m.a. bygginga- og umhverfistækni, orkunýtingu, jarðfræði og garðyrkju- og landnýtingu. Einnig skiptir miklu að ríkið, opinberar stofnanir, fyrirtæki og fjárfestar komi að verkefninu, og hefur þegar verið leitað til menntamálaráðuneytisins.

Þekkingargarðar gegndu lykilhlutverki við uppbyggingu atvinnulífsins í Svíþjóð og Finnlandi á áttunda áratugnum, og má nefna IDEON Science Park í Lundi og Oulu Science Park í Oulu sem fyrirmyndir. Menn áttuðu sig á að eina auðlindin sem raunverulega skiptir máli er mannauður, fólkið sem byggir samfélögin og hugmyndir þeirra. Hins vegar hefur komið skýrt fram að undanförnu að þar var gripið alltof seint til aðgerða. Afleiðingin varð mikið atvinnuleysi og upplausn í samfélaginu - eitthvað sem bæjarstjórn Árborgar hyggst koma í veg fyrir með öllum tiltækum ráðum.

Höfundur er bæjarstjóri Árborgar.






Skoðun

Sjá meira


×