Viðskipti erlent

Mecom vildi sameina Urban og Nyhedsavisen

Mecom fjölmiðlasamsteypan vildi sameina fríblöðin Urban og Nyhedsavisen að því er fram kemur í frétt í Jyllands-Posten í morgun.

David Montgomery eigandi Mecom, sem aftur á Berlinske Tidende útgáfuna, lagði fram skriflegt tilboð um sameiningu blaðanna aðeins tveimur mánuðum áður en útgáfa Nyhedsavisen var lögð niður.

Jyllands-Posten segir að samvinna þeirra Montgomery og Morten Lund aðaleigenda Nyhedsavisen hafi verið mun nánari en áður var talið.

Samkvæmt tilboði Montgomery hefði sameiningin tryggt eigendum Nyhedsavisen 24,9% af hinni nýju útgáfu. Þess má geta að skömmu áður en tilboðið var lagt fram höfðu fríblöðin MetroXpress og 24Timer sameinast.

Eins og kunnugt er af fréttum hafa danskir fjölmiðlar fjallað töluvert um meint tilboð Montgomery um að borga Morten Lund rúmlega 2 milljarða kr. fyrir að leggja Nyhedsavisen niður. Átti það tilboð að hafa komið aðeins þremur dögum áður en útgáfa Nyhedsavisen var slegin af. Báðir hafa þeir neitað að slíkt tilboð hafi verið í spilunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×