Viðskipti erlent

Uppgjör Danske Bank betra en búist var við

Danske Bank, annar stærsti banki Norðurlanda að markaðsvirði, hagnaðist um 4.360 milljónir danskra króna, jafnvirði 72 milljarða króna, fyrir skatta samkvæmt uppgjöri fyrir annan ársfjórðung ársins.

Arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli nam 11,2% samanborið við 15,9% á sama tíma í fyrra.

Meðalspá greinenda hljóðaði upp á DKK 2,69 milljarða en hagnaður eftir skatta nam DKK 3,24 milljarða og skýrist frávikið einkum af hærri gengishagnaði en búist var við er segir í Hálf fimm fréttum Kaupþings.

Afskriftir þrefaldast frá sama tímabili í fyrra vegna fallandi húsnæðisverðs í Danmörku en afskriftir voru þó lægri en greiningaraðilar höfðu spáð.

Í fréttum Kaupþings kom einnig fram að stjórnendur bankans séu nokkuð brattir eftir uppgjörið og búist þeir við að hagnaður ársins verði meiri en fyrri spár þeirra gerðu ráð fyrir.

Markaðsaðilar tóku ekki vel í uppgjör Danske Bank en gengi bankans lækkaði um 2,7% í viðskiptum dagsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×