Viðskipti erlent

Starbucks lokar 500 sölustöðum

Kaffihúsakeðjan Starbucks áformar að loka fimmhundruð sölustöðum í Bandaríkjunum til viðbótar við aðrar hundrað sem þegar hafði verið tilkynnt um að yrði lokað.

Allt að 12 þúsund störf munu verða lögð niður vegna þessa breytinga, þrátt fyrir að Starbucks hyggist flytja starfsfólk sitt yfir á aðra sölustaði sína. Þrátt fyrir að sölustöðum, þar sem sala hefur gengið illa verði lokað, er stefnt að því að opna nýjar verslanir víðs vegar um Bandaríkin. Engu að síður er gert ráð fyrir því að heildarvinnuafl á vegum fyrirtækisins dragist saman um 7%.

Starbucks hefur opnað fjölda nýrra sölustaða á þeim svæðum sem húsnæðiskrísan í Bandaríkjunum hefur orðið verst, svo sem í Flórída og Kalíforníu. Fyrirtækið hefur ekki farið varhluta af þeim samdrætti sem verið hefur í Bandaríkjunum að undanförnu því að verulega hefur dregið úr sölu á dýru kaffi.

Hlutabréf í Starbucks hækkuðu um 6% eftir að tilkynnt var um hagræðingaraðgerðirnar í gær.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×