Viðskipti innlent

Sterling skipað að borga umdeild flugstjórnargjöld

Eurocontrol, sem hefur yfirumsjón með flugumferðarstjórn í Evrópu, hefur skipað Sterling Air að borga umdeilda skuld sína við dönsku flugöryggisþjónustuna Naviair eða eiga annars á hættu að flugvélar félagsins verði kyrrsettar.

Fjallað er um málið á vefsíðunni Business.dk og þar er greint frá bréfi sem Sterling barst í morgun frá Eurocontrol en þar er krafan og hótunin um kyrrsetningu sett fram. Að sögn Rulle Westergaard fjölmiðlafulltrúa Sterling var því ákveðið að borga þær 2,1 milljón dkr. eða rúmlega 34 milljónir kr. sem skuldin hljóðar upp á.

Í sömu frétt kemur fram að SAS flugfélagið og önnur félög sem fljúga til og frá Danmörku eru mjög óánægð með þá þjónustu sem Naviair veitir og miklar hækkarnir sem orðið hafa á þjónustunni samhliða því að þjónustustigið hefur verið lækkað. Hafa flugfélögin ítrekað lent í seinkunum og öðrum vandræðum sökum þess. Því hafði Sterling neitað að greiða þessi gjöld frá því í júní í sumar.

SAS hefur kvartað undan Naviair til danska samgönguráðherrans og íhugar að höfða skaðabótamál gegn Naviair.

Almar Örn Hilmarsson forstjóri Sterling segir í samtali við Vísi.is að flugfélögin vinni lögfræðilegar hliðar þessa máls í sameiningu. "Við erum allir undir sama hatti í þessu máli," segir Almar Örn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×