Viðskipti innlent

Segir kröfu Stones Invest á hendur Landic Propery fáránlega

Páll Benediktsson uplýsingafulltrúi Landic Property segir að krafa Stones Invest á hendur Landic fyrir fógetaréttinum í Kaupmannahöfn sé fáranleg. "Þetta eru einhverskonar taugaveiklunarviðbrögð við gjaldþrotakröfu okkar á hendur Stones Invest," segir Páll.

Eins og fram kom í frétt hér á Vísi um helgina greindi blaðið Berlingske Tidende frá því að gjaldþrotabeiðni Landic byggir á kröfu um endurgreiðslu á virðisaukaskatti upp á 7,5 milljónir dkr. vegna byggingarframkvæmda í Holbæk. Landic telur að Stones Invest hafi haldið þessari upphæð eftir og að hún hefði með réttu átt að ganga til Landic.

Ennfremur kom fram að Landic Property telur sig eiga allt að 140 milljónum dkr. inni hjá Stones Invest, eða sem svarar til um 2 milljarða kr.

Páll Benediktsson segir að krafa Stones Invest á hendur Landic sé 30 milljónir dkr. og að hún sé vegna byggingarframkvæmda sem ekki séu hafnar enn.

"Málið er að að Stones Invest átti að fá þessa fjárhæð frá okkur um leið og þeir hefðu gengið frá lóðakaupum undir bygginguna," segir Páll. "Þeir hafa hinsvegar enn ekki getað sýnt okkur fram á að þeir hafi keypt umrædda lóð og því héldum við að okkur höndum."

Eins og fram hefur komið í dönskum fjölmiðlum rambar Stones Invest nú á barmi gjaldþrots. Því ákvað Landic að leggja fram gjaldþrotabeiðni til að tryggja hagsmuni sína.

Páll telur að fyrrgreindur mótleikur Stones Investvið því sé einfaldlega tilraun Stones Invest til að halda andlitinu út á við.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×