Erlent

Farið yfir framsalskröfu yfir kaupmanni dauðans

Viktor Bout er einn af umfangsmestu vopnasmyglurum og -sölumönnum heims.
Viktor Bout er einn af umfangsmestu vopnasmyglurum og -sölumönnum heims. MYND/AP

Taílenskir dómstólar taka í dag fyrir framsalskröfu Bandaríkjanna á hendur kaupmanni dauðans sem svo hefur verið nefndur.

Viktor Bout er einn af umfangsmestu vopnasmyglurum og -sölumönnum heims og hvorki meira né minna en fyrirmyndin að persónunni sem Nicholas Cage túlkaði í kvikmyndinni Lord of War árið 2005.

Bout var handtekinn í Taílandi í byrjun mars en hann á yfir höfði sér fjórar ákærur í Bandaríkjunum vegna mála sem tengjast hryðjuverkum. Bout er rússneskur ríkisborgari og málareksturinn í Taílandi hefur tafist í marga mánuði vegna vandræða við að finna honum verjanda.

Fyrirtöku málsins var frestað í júní þar sem þáverandi verjandi Bouts hélt því fram að sakborningurinn væri hjartveikur. Sá sagði sig svo frá málinu en sá næsti mætti ekki við fyrirtöku sem átti að vera 28. júlí. Nú er þriðji verjandinn kominn til skjalanna en hún hóf mál sitt í morgun með því að krefjast frávísunar vegna ólöglegrar handtöku Bouts. Dómari hafnaði þessu og málflutningur stendur nú yfir.

Bout var handtekinn þegar bandarískur lögreglumaður, dulbúinn sem kólumbískur uppreisnarmaður, samdi við hann um kaup á stýriflaugum. Hann á yfir höfði sér lífstíðardóm verði hann fundinn sekur í Bandaríkjunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×