Erlent

Kirkjur brenna í trúarbragðauppþotum á Indlandi

Börn bjarga eigum sínum úr farfuglaheimili sem eyðilagt var af hindúum.
Börn bjarga eigum sínum úr farfuglaheimili sem eyðilagt var af hindúum. Mynd/AP

Uppþot á milli hindúa og kristna hafa verið að breiðast út á Austur-Indlandi. Hópur hindúa rændu og rupluðu kirkju og lentu saman við kristna í dag samkvæmt lögreglu þar í landi. Yfirvöld hafa átt í erfiðleikum að halda í skefjum sívaxandi ofbeldi vegna trúardeilna á þessu svæði Indlands.

Hindúar hafa bæði eyðilagt meira en tíu kirkjur og ráðist á kristna í austurhluta Orissufylkisins á Indlandi eftir morð á leiðtoga Hindúa í Kandhamalhéraðinu í Orissu. Talið er að minnsta kosti ellefu manns hafi látist í þessum trúarbragðaóeirðum. Hvorki 3000 manna lögreglulið né útgöngubann hafa náð að halda óeirðunum í skefjum.

Stjórnarskrá Indlands er ótengd trúarbrögðum að nafninu til en mikill meirihluti Indverja eru hindúatrúar. Aðeins 2,5 prósent íbúa eru kristnir en Kandhamalhéraðið sker sig mjög úr þar sem um 650 þúsund manns eða 20 prósent héraðsins eru kristnir.

Flestir þeirra hafa snúist frá hindúisma til kristni. Telja hindúar það orsakast af því að prestar séu að múta lægri stéttum hindúasamfélagsins til þess að taka upp kristni. Kristnir segja hins vegar að lægri stéttir hindúasamfélagsins skipti um trúarbrögð til þess að komast úr hinu stífa stéttarsamfélagi hindúismans.

Óeirðirnar hafa dregið að sér alþjóðlega athygli. Benedikt páfi hefur fordæmt ofbeldið gegn kristnum í Orissu en einnig harmað morðið á hindúaleiðtoganum. Friðargæslusveitir hafa verið sendar til þorpa í héraðinu í dag til þess að reyna að fá leiðtoga samfélaganna til að tala saman. Kristnir íbúar héraðsins segja hins vegar að árásirnar séu mun verri en yfirvöld vilja viðurkenna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×