Viðskipti innlent

Hagnaður Eyris 298 milljónir

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Erik Kaman og Árni oddur Hér sjást Erik Kaman, fjármálastjóri Marels, og Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Eyris Invest.
Erik Kaman og Árni oddur Hér sjást Erik Kaman, fjármálastjóri Marels, og Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Eyris Invest. Fréttablaðið/ÓKÁ
Eftir skatta nemur hagnaður fjárfestingarfélagsins Eyris Invest 298 milljónum króna á fyrri helmingi ársins. A sama tíma í fyrra nam hagnaðurinn 2,2 milljörðum króna. Fyrir skatta tapar félagið 1,4 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Eyris, segir að miðað við erfiðar aðstæður á fjármálamörkuðum séu forsvarsmenn félagsins sáttir við að skila lítils háttar hagnaði á fyrri hluta ársins. Hann segir mest um vert að Eyrir hafi skilað góðri ávöxtun í fortíð og hafa þolinmæði og styrk til að grípa þau tækifæri sem kunni að myndast í náinni framtíð.

„Frá stofnun Eyris Invest á miðju ári 2000 hefur árleg hækkun á innra virði hlutafjár numið 39,8 prósentum að meðaltali til samanburðar við 6,0 prósenta neikvæða árlega meðalávöxtun heimsvísitölu MSCI,“ segir í tilkynningu.

Heildareignir Eyris í lok uppgjörstímans námu rúmum 58 milljörðum króna, en kjölfestueignir eru Marel Food Systems, Össur og iðnsamstæðan Stork í Hollandi. Afkoma þessara kjölfestueigna er sögð hafa verið góð fyrstu sex mánuði ársins og horfur í rekstrinum góðar.

Eigið fé Eyris er 18,2 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall 31,3 prósent. Í tilkynningu kemur fram að væri laust fé notað til endurgreiðslu skulda myndi eiginfjárhlutfallið reiknast fjörutíu prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×