Innlent

Tómas fær styttu á áberandi stað í borginni

Tómas Guðmundsson.
Tómas Guðmundsson.

Í borgarstjórn Reykjavíkur í dag var samþykkt með níu atkvæðum borgarfulltrúa meirihlutans auk F-lista að láta gera myndastyttu af Tómasi Guðmundssyni, sem oft er kallaður borgarskáldið. Það var Kjartan Magnússon sem lagði fram tillöguna en fulltrúar Samfylkingar og VG sátu hjá í málinu. Tillagan gerir ráð fyrir að styttunni verði komið fyrir á áberandi stað í borginni.

Í greinargerð með tillögunni segir: „Tómas Guðmundsson er oft kallaður borgarskáldið en hann varð einna fyrstur til að yrkja af aðdáun og áhuga um Reykjavík. Allt frá upphafi síðustu aldar höfðu flest höfuðskáld Íslendinga búið í Reykjavík en fæst þeirra litu á borgina sem boðlegt yrkisefni. Skáldin voru þá enn upptekin af fegurð náttúrunnar og sveitanna en borgarlandslagið og borgarlífið átti ekki heima í kveðskap. Tómas breytti þessu með kvæðabókinni ,,Fagra veröld", sem kom út árið 1933 og hlaut einróma lof fyrir ljóðræna orðfimi. Tómas fór ekki út í náttúruna heldur inn í borgina í leit að yrkisefnum og kvæði hans um Vesturbæinn, Austurstræti, Reykjavíkurhöfn, Hljómskálagarðinn, húsin í bænum og fjölskrúðugt mannlífið urðu landskunn. Áhrif Tómasar á síðari tíma skáld eru mikil og enn má finna þau í verkum yngstu skálda. Tómas er eitt af ástsælustu skáldum þjóðarinnar og verk hans lifa með Reykvíkingum og raunar landsmönnum öllum."

Í greinargerðinni er einnig bent á að á áttunda áratugnum létu borgaryfirvöld gera brjóstmynd af Tómasi og var henni komið fyrir í Austurstræti við Reykjavíkurapótek. „Á tíunda áratugnum var brjóstmyndin tekin niður vegna framkvæmda í Austurstræti en hún hafði þá orðið fyrir hnjaski af mannavöldum þar sem hún stóð nokkuð berskjölduð. Um árabil var brjóstmyndin höfð í geymslu og hennar saknað af mörgum. Árið 2000 var brjóstmyndinni komið fyrir að nýju í Borgarbókasafni Reykjavíkur og þar hefur hún verið síðan," segir að lokum.

Þótt Borgarbókasafnið sé fjölsótt stofnun, verður að telja víst að mun færri sjá brjóstmyndina nú en þegar hún var á miðju stræti í hjarta borgarinnar. Staðsetning brjóstmyndarinnar í Austurstræti var þó ekki óumdeild á sínum tíma. Var m.a. bent á að meginreglan væri sú að brjóstmyndir væru staðsettar innan húss og til að þær nytu sín úti við, þyrftu þær að vera í sérstöku rými.

Í ljósi framlags Tómasar Guðmundssonar til menningarlífs Reykjavíkur og þess heiðursess, sem hann skipar í hugum borgarbúa, fer vel á því að gerð sé stytta af Tómasi og henni komið fyrir á áberandi stað í hjarta Reykjavíkur. Vel færi á því að slíkri styttu yrði valinn staður í Hljómskálagarðinum í námunda við stytturnar af Jónasi Hallgrímssyni og Bertel Thorvaldsen. Ýmsir aðrir staðir gætu þó komið til greina, t.d. á Landakotstúninu, við gönguleiðir í Vesturbænum eða nálægt Reykjavíkurhöfn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×