Erlent

Hálf milljón sögð einangruð á Indlandi

MYND/AP

Talið er að um hálf milljón manna í Bihar-héraði á Indlandi, nærri landamærum Nepals, sé einangruð í heimabæjum sínum eftir gríðarleg flóð þar að undanförnu.

Eru fjölmörg þorp umflotin vatni og reyna björgunarmenn að ná til fólks sem flúið hefur upp á þök húsa sinna undan vatnselgnum. 75 hið minnsta eru látnir í héraðinu og óttast er að sú tala eigi eftir að hækka þegar ástandið í afskekktum bæjum kemur í ljós.

Talið er að um 1,2 milljónir manna hafi orðið heimilislausar vegna flóðanna sem rekja má til þess að stífla brast í á sem liggur bæði um Nepal og Bihar-hérað í Indlandi. Áin flæddi yfir bakka sína með fyrrgreindum afleiðingum.

Erfiðlega hefur gengið að koma hjálpargögnum til nauðstaddra og er óttast að sjúkdómar kunni að brjótast út í búðum sem komið hefur verið upp vegna hamfaranna. Frá Nepal berast til að mynda fréttir þess efnis að niðurgangur og lungnabólga hafi stungið sér niður í búðum heimilislausra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×