Viðskipti innlent

Mikil svartsýni ríkjandi meðal neytenda

Væntingavísitalan mælist 82,7 stig í maí og lækkar um 14,5% frá fyrri mánuði. Um er að ræða þriðja mánuðinn í röð þar vísitalan mælist undir 100 stigum sem þýðir að fleiri neytendur séu svartsýnir en bjartsýnir.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Glitnis. Þar segir að vísitalan hafi ekki verið lægri síðan árið 2001. Væntingar neytenda hafa dregist saman frá því í haust og er vísitalan nú 46,6% lægri en á sama tíma fyrir ári síðan.

Þegar umrót undanfarinna mánaða á fjármálamörkuðum og vaxandi svartsýni í hagkerfinu er höfð til hliðsjónar kemur þessi þróun ekki á óvart. Þá hefur neikvæð umræða á undanförnum mánuðum og dekkri spár um horfur í íslensku hagkerfi og fjármálalífi haft áhrif á væntingar neytenda.

Allar undirvísitölur í væntingavísitölunni lækka frá fyrri mánuði og allar mælast þær nú undir 100 stigum. Mat á núverandi ástandi hefur ekki verið verra síðan vorið 2003 og þá hefur mat á atvinnuástandinu ekki mælst lægra síðan í júní 2004.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×