Viðskipti erlent

Millibankavextir í dollurum hækkuðu mikið í dag

Millibankavextir í bandaríkjadollar, svokallaðir Libor vextir, hækkuðu mikið í dag.

Fjallað er um málið í Vegvísi greiningar Landsbankans. Þar segir að svo virðist sem tvær ástæður liggi að baki hækkuninni. Annarsvegar hafa fjárfestar áhyggjur af óvissu um aðgerðir ríkisstjórnar Bandaríkjanna til að takast á við aðstæður í fjármálakerfinu í meðförum þingsins. Hinsvegar bætast ársfjórðungsmót við og hanga bankar því fastar á því lausafé sem býðst til þess að sýna fram á styrka stöðu sína við birtingu næsta árshlutauppgjörs.

Libor vextir til þriggja mánaða hafa ekki hækkað hraðar síðan árið 1999 að því er fram kemur í frétt á Bloomberg. Um leið hefur svokallað Ted Spread, sem mælir muninn á 3 mánaða millibankavöxtum og ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa til jafnlangs tíma, aldrei verið hærra. Það mælist nú 316 punktar en var 114 punktar fyrir einungis mánuði síðan.

Athygli vekur að þetta er hærra álag en í síðustu viku þegar Lehman Brothers varð gjaldþrota og tryggingarfélagið AIG rambaði á barmi gjaldþrots.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×